Fatastærðir og grannar fyrirsætur

Mannlíf, 7. ágúst 2019

Allir mannslíkamar eru einstakir og mismunandi og engar tvær manneskjur eru nákvæmlega eins.

Þegar farið var að fjöldaframleiða tískufatnað var fundið upp stærðarkerfi með það að markmiði að selja tísku til fjöldans. Í dag rúmlega 100 árum eftir að farið var að fjöldaframleiða tískufatnað er ekki til neitt stærðarkerfi sem raunverulega virkar fyrir alla. Stærðarkerfi fjöldaframleidds fatnaðar virkar ekki nema í mestalagi um 60% og það eru ekki til neinar ákveðnar alþjóðlegar stærðir af þeirri augljósu ástæðu að enginn er eins og hugmyndin að setja allt fólk í nokkrar særðir er í raun fáránleg. Stærðakerfi framleidds fatnaðar eins og við þekkjum í dag þjónar fyrst og fremst fjöldaframleiðslunni.

Áður en fjöldaframleiðsla tískufatnaðar hófst þá þótti það einfaldlega óhugsandi að ein manneskja gæti passað í föt af annarri. Ef að föt sem höfðu í upphafi verið saumuð til að passa á eina manneskju, áttu að vera notuð af annarri, sem auðvitað var algengt, þá var flíkin tekin í sundur og aðlöguð hinum nýja líkama. Fjöldaframleiddur tískufatnaður verður til í upphafi síðustu aldar en fram að þeim tíma var allur tískufatnaður “Haute-Couture” eða sérsaumaður á hvern og einn.

Ýmiss annar fatnaður eins og vinnufatnaður var framleiddur í stærðum og seldur tilbúinn en hann var víður og ekki var ætlast til þess að hann ætti að passa vel.

Tískufatnaður er vara sem enginn vill eiga á lager vegna þess hve stuttan líftíma hann hefur. Þegar slíkur fatnaður er sýndur í fyrsta skipti þá er einungis til „prótótýpa“ af flíkinni og bara í einni stærð vegna þess að hann verður ekki framleiddur fyrr en hann er seldur. Þær fyrirsætur sem selja eiga fatnaðinn með því að sýna hann verða einfaldlega að passa í allt sem að að þeim er rétt. Þær verða þess vegna að vera 2-3 stærðum minni en flestar „prótótýpur“ til þess að ekki komi upp sú staða að þær passi ekki í fötin því þá er starfsferli þeirra einfaldlega lokið.

Þegar við sjáum ofurgrannar fyrirsætur í fjölmiðlum þá er mikilvægt að muna að þær eru svona grannar fyrst og fremst til þess að passa í hvað sem er en ekki vegna þess að þetta vaxtarlag þyki fallegast eða “réttast”. Með tímanum hefur okkur farið að þykja þetta vaxtarlag eftirsóknarvert vegna þess að við sjáum það allsstaðar. Fjöldaframleiðsla tískufatnaðar hefur algerlega jaðarsett langflestar líkamsgerðir og því miður komið þeim skilaboðum á framfæri að aðrir líkamar en hinir “réttu” séu á einhvern hátt minna virði.

Við verðum að muna að það er fjöldaframleiðslan sem hefur búið til þessa hugmynd. Við erum ekki fjöldaframleidd heldur er hver og einn líkami einstakur. Líkami okkar er alltaf réttur og enginn á að vera jaðarsettur vegna líkama síns.

Previous
Previous

Erkitýpur borgarinnar

Next
Next

Borgin, fólkið og tískan