Borgin, fólkið og tískan
Mæna, 2017, City, People, Fashion, 7th issue
Tíska og tískumenning eins og við þekkjum hana í dag er í sögulegum skilningi samofin borginni og þróun borgarsamfélagsins. Tíska er í raun og veru bein afleiðing borgarmenningarinnar og eru þessi tvö fyrirbæri að segja má óaðskiljanleg. Þetta má meðan alnnars rekja til þess að tíska er miðill sem hefur enga merkingu ef það er enginn áhorfandi. Tíska verður því mikilvægari í borgarsamfélagi, í umhverfi þar sem að samkeppni ríkir, en í sveitum eða dreyfbýli þar sem tíska skiptir minna eða engu máli. Það má segja að því fleira sem fólk er á fermeter á ákveðnu svæði, því meira máli skiptir útlit og tíska.
Það hefur verið gjarnan litið á tísku sem órökrétt og tilviljunakennt fyrirbæri en á borgina sem rökrétt fyrirkomulag, vel skipulagt og vel hugsað fyrirbæri. En líkt og borgin er tíska einnig flókið tungumál sem gefur okkur tækifæri á að miðla því hver við erum og hvað við stöndum fyrir – og hvernig við viljum að aðrir sjái okkur og skilji. Tíska er miðill sem að miðlar upplýsingum til samfélagsins og gefur okkur færi á að falla inn í og tilheyra einhverjum hópi eða að sýna sérstöðu/andstöðu og standa út úr hópi. Við getum verið með eða á móti ríkjandi tísku og sýnt það með eigin klæðaburði. Það er því hægt að miðla pólitískum hugmyndum með tísku auk hugmyndum um ástand okkar, uppruna, menntun og sjálfsmynd. Þá má einnig benda á að aukin samkeppni á meðal fólks skapar kjöraðstæður fyrir þróun tískumenningu. Tískan er keyrð áfram af hugmyndinni um breytingar, „hinu nýja“ og með því að fylgjast með og vera leiðandi í tísku sýnir þú öðrum að þú skiljir samtímann og tíaðrandann.
Breytingarnar í París
Það voru tveir sögulegir atburðir sem að urðu til þess að tíska og sú tískumenningu sem við þekkjum hana í dag varð til. Annars vegar var það franska byltingin og hins vegar iðnbyltingin sem varð skömmu seinna. Með iðbyltingunni þróaðist borgin og innan hennar samfélag neyslu þar sem lúxusvarningur og tíska varð í fyrsta skipti aðgengileg borgarastéttinni.
Fyrir frönsku byltinguna voru föt almennings búin til af þeim sem gengu í þeim, það er að segja: fatnaður venjulegs fólks var heimatilbúinn en tískufatnaður var aðeins í boði fyrir aðalinn og urðu þær flíkur til sem samstarf milli aðalsins og klæðskera. Á þessum tíma voru strangar reglur um framleiðslu textíls og var henni stjórnað af fagfélugum (e. guilds) í textíliðnaði. Tilgangur þessara reglna var að tryggja mestu mögulegu gæði í framleiðslunni miðað við þá þekkingu sem var í faginu á hverjum tíma. Það var til dæmis bannað að vefa saman ólíka þræði, efni eins og silki og bómull, og framleiðendum var einnig bannað að framleiða umfram efni og eiga á lager. Textíll var einungis framleiddur fyrir sérhverja pöntun sem miðaðist yfirleitt við framleiðslu á einni flík fyrir aðalsborinn mann eða konu. Þetta regluverk kom í veg fyrir hvers konar nýsköpun í textílframleiðslu nema þeirri sem sneri að vefnaðinum sjálfum, fagurfræði, munsturhönnun og útfærslu lita.
Fyrir frönsku byltinguna var vandaður textíll aðeins framleiddur fyrir aðalinn sem hafði það að keppikefli að sýna þekkingu, auð, vald og smekkvísi í klæðum sínum. Þegar aðalsmenn eða konungasbornir sáust á almannafæri eða við hirðir annarra landa þá þurfti klæðnaður þeirra að sýna yfirburði í tækni, þekkingu, fagurfræði og auð. Það var því mikilvægt að textíllinn væri framleiddur af mestu mögulegu gæðum og fyrrnefnt regluverk tryggði það. Klæðnaður aðalsins hafði því hlutverki að gegna að sýna yfirburði aðalsins og þjóðar hans svipað og seinna gerðist í samkeppni þjóðanna á milli um að koma mannveru á tunglið.
Eftir byltinguna í Frakklandi 1789, þegar að aðallinn, sá sem keypti hinn fína textíl, var ekki lengur til staðar þurfti losa um þessar reglur til þess að hægt væri að framleiða ódýrari og aðgengilegri efni fyrir borgarastéttina. Flókinn, þungur og dýr textíll úr silki, ofinn með tilkomumiklum mynstrum hentaði augljóslega ekki hinum vinnandi manni. Eftir byltinguna þróaðist fataiðnaðurinn smám saman og varð að sjálfstæðum iðnaði með tilkomu vélavæðingu iðnbyltingarinnar. Á sama tíma og iðnbyltingin gekk í garð varð mikil framþróun í skipulagi Parísarborgar sem varð fljótt miðstöð í sölu á lúxusvöru og tískufatnaði.
Í París höfðu verið uppi hugmyndir um skeið, um það að það þyrfti að gera breytingar á borginni. Húsakostur var lélegur og óheilsusamlegur, götur þröngar og skolpræsi opin en á þessum tíma var París farsóttarbæli þar sem lífskilyrði fólks voru mjög slæm og barnadauði hár. Napóleon III sem var nýkominn til valda á þessum tíma réði Georges-Eugene Haussmann til þess að skipuleggja framkvæmdirnar og endurnýja borgina. Markmiðið var að ná að klára þessar endurbætur fyrir opnun heimsýningarinnar í París árið 1855. Haussmann er ábyrgur fyrir þeirri París sem við þekkjum í dag. Borg breiðstræta, torga og garða. Það er þarna sem að almenningsrýmið verður til ásamt rými til neyslu og verslunar –rými varð til fyrir samfélag þar sem fólk sýndi sig og sá aðra. Kaffíhús, og stórverslanir urðu staðir þar sem fólk kom saman og kom skilaboðum á framfæri með útliti sínu og framkomu. Borgarsamfélagið þróaðist og breyttist og menningarsagan tók nú að snúast um einstaklinginn og neyslu hans.
Að klæðast fötum eða að fylgja tísku?
Hugmyndin um tísku sameinaði borgarbúa Parísar í nýrri hugmyndafræði. Fólk hafði núna frelsi til þess að tjá sig með nýjum hætti og taka þátt í tískumenningu hins nýja borgarsamfélags. Tíska sem miðill bjó til nýtt samband milli einstaklingsins og rýmisins og varð tungumál sem tengdi saman einkarýmið og almenningsrýmið. Tíska varð hið nýja tjáningarform þar sem að frelsi einstaklingsins, útsjónarsemi hans og frumleiki fékk að njóta sín.
Áður hafði almenningur ekki tekið þátt í því að sýna vald og auð með fatnaði nema með takmörkuðum hætti en áður hafði áherslan helst legið í því að klæðast fötum yfirhöfuð. Nú rann upp tími einstaklingsins og frelsis, frelsi einstaklingsins til þess að tjá sig. Í hinni „nýju“ borg sem varð til eftir iðnbyltinguna um 1850 voru að segja má allir að horfa á alla. Það vantaði samskiptamiðil sem hentaði hinum nýja lífsstíl og tíska varð sá miðill.
Tískan var keyrð áfram af þörfinni fyrir breytingum. Textíl- og fataiðnaðurinn gat fullnægt þessari nýju eftirspurn. Hugmyndin um að allir gætu eignast og upplifað lúxus varð til. Aukin áhersla var á hina sjónrænu upplifun í borginni hvort sem um var að ræða byggingalist eða útlit og klæðnað. Tískan miðlaði fagurfræði og efnagaslegri stöðu einstaklingsins til hinna sem á horfðu en þetta voru þeir tveir þættir sem borgarsamfélagið snerist fyrst og fremst um. Nú varð mikill hugmyndafræðilegur og sögulegur munur fólgin í því, að klæðast fötum – eða að fylgja tísku nýrra tíma.
Byltingar
Tískan og borgin hafa haldið áfram að þróast hlið við hlið. Það hafa verið gerðar margar merkar byltingar í tísku síðan á þessum fyrstu árum neyslumenningarinnar í Parísarborg. Áherslan hefur þá alltaf verið á aukið frelsi einstaklingsins. Fatnaður hefur þróast í þá átt að verða þægilegri og hefur tískan markvisst rifið niður hvers konar hugmyndir um hvað beri að hylja eða hvernig holdið skuli heftað og hamið. Allar reglur varaðandi útlit og klæðaburð hafa verið brotnar og þeim þannig mótmælt á síðastliðnum hundrað og fimmtíu árum. Þróun sundfatnaðar sýnir glöggt hver þróunin hefur verið á síðustu áratugum. Hugmyndin um unisex kom fyrst fram í tískuklæðnaði og þótti vera byltingarkennd og í kjölfarið fóru hefðbundnar hugmyndir um tvö kyn að þynnast og þurrkast út. Einnig má nefna mini-pilsið sem í dag þykir sjálfsagður fatnaður, en þótti á sínum tíma vera merki um hnignandi siðferðiskennd mannkyns. Pönkið gerði það að verkum að eftirsóknarvert varð að vera í rifnum fötum, en það er sterk pólitísk skírskotun, og líklegast í fyrsta skiptið sem það varð eftirsóknarvert að vera í slitnum klæðum.
Saga tískunnar er ekki órökrétt eða algjörlega tilviljannakennd, heldur þéttofin við hverjar þær samfélagsbreytingarsagar sem eiga sér stað, þróunn mannsins og hugmynda hans um sjálfan sig og aðra. Tíska er að segja má eitt af þeim tækjum sem hefur bæði gert okkur kleyft að þróast og breytast menningarsögulega séð, og einnig sem einstaklingar með þörf og löngun til að tjá okkur.
Linda Björg Árnadóttir