Innrás japana í tískuheiminn

Mannlíf 2020

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar gerðu japanar innrás inn í vestrænan tískuheim með japanskar hugmyndir, fagurfræði og gildi.

Tískukerfið í Paris var á þessum tíma orðið stíft og leiðinlegt og nýliðun í greininni var lítil. Það hefur væntanlega búið til jarðveg sem hefur gefið tækifæri til breytinga. Hin vestræna tíska var orðin stöðnuð með sýna  þröngu stuttu dragtir og herðapúða sem einkennndu áttunda áratug síðustu aldar.

Þar var ráðandi hefbundin vestræn sýn á kynþokka kvenna þar sem að áhersla var á að sýna brjóst og leggi í háhæluðum skóm.

Japanir höfðu aðrar hugmyndir um það hvaða líkamspartar væru kynþokkafullir. Áhersla á mitti, brjóst og leggi var hvergi að sjá og háir hælar hafa nær aldrei sést í japönskum tískusýningum. Svæðið aftan á hálsinum þykir hins vegar mjög kynþokkafullt í japanskri hugmyndafræði og á Kímonó, hefðbundnum búningi japanskra kvenna þá fellur hálsmálið aftan á baki aðeins niður og sýnir þannig þennan fagra líkamshluta.

Afleiðing þessarar innrásar Japana var alger viðsnúningur á hugmyndum. Fagfólk innan tískuheimsins skiptist í tvo hópa, með og á móti hinum nýju framandi hugmyndum um tísku og kynþokka. Comme de Garcons, Yohji Yamamoto, Issey Miake og fleiri samlandar urðu hinar nýju stjörnur tískuheimsins og gerðu varanlegar breytingar á iðnaðnum. Hvorki fyrr né seinna hefur annar menningarheimur gert viðlíka innrás inn í hinn vestræna tískuheim. 

Það sem að einkenndi þennan fatnað voru eintóna silhóettur, víð og stór ósymmetrísk form. Þessi nýja tíska bauð vestrænum hugmyndum birginn og breyttu hugmyndum fólks varðandi hvernig fatnaður ætti að líta út og er tískuheimurinn ríkari fyrir vikið.

Vegna þess hve japanska tískan hafnaði að sýna líkamann á hefðbundinn vestrænan hátt þá hafa þessir hönnuðir staðið fyrir það sem flokkast sem „intellectual“ tíska. Það þykir ennþá vera óhugsandi að vera kynþokkafullur, sýna hold og vera á sama tíma tekinn alvarlega sem hugsuður. Enn í dag þá dugar að klæðast þessum merkjum ef að viðkomandi hefur áhuga á að koma fyrir og vera samfærandi sem galleristi eða listrænn stjórnandi í listheimum.

Innrás Japana er enn eitt merkið um alþjóðavæðingu og það hvernig ólíkar menningar eru að renna saman með áhugaverðum og þörfum afleiðingum. Það er hollt og gott að ögra hefðum og hugmyndum reglulega með nýjungum. Þannig þróumst við og þroskumst.

Linda Björg Árnadóttir

Previous
Previous

Skólaus í ósamstæðum sokkum

Next
Next

Bannað með lögum