Þegiðu og vertu þæg!
Sýnir þú einhverjum „vanillu sjálf“?
Að sýna „vanillu sjálf“ er að breyta klæðnaði og framkomu með það að markmiði að falla betur að hugmyndum valdhafanna til að hámarka möguleika í lífi og starfi og þannig minnka áhættu á að ögra þeim og hugmyndum þeirra.
„Vanilla sjálf“ er hugmynd og orðalag sem kemur frá svörtu fólki í BNA og hefur verið notað sérstaklega af lituðum konum sem aðferð að til þess að aðlaga útlit og persónu sína betur að hugmyndum hvítu millistéttarinnar sem hefur framtíð þeirra í höndum sér. Að sýna „vanilla sjálf“ er að fara á móti ríkjandi steríótýpu og fordómum um svart fólk og snýst að miklu leyti um að leggja áherslu á gott siðferði og gera lítið úr kynþokka þegar kemur að klæðnaði og persónuleika. Svartir menn og konur í BNA á vinnumarkaði þurfa að passa sig á að ekki leynist einhver mynd af þeim á netmiðlunum þar sem þau væru kannski léttklædd, of sexí, of glöð eða eitthvað sem hvítu millistéttinni (sem er oftast vinnuveitandinn) gæti þótt ögrandi og vafasamt því það gæti skaðað framtíðarmöguleika þeirra.
Í gegnum söguna hefur þeim hugmyndum verið haldið á lofti að hin vinnandi stétt og aðrir hópar sem ekki eru valdhafar séu hættulegir, spilltir, ógnandi, byltingarsinnaðir og eiga því ekki virðingu skilið. Þessi hugmynd hefur verið sett fram til þess að yfirstéttin geti stillt sér upp sem „hinir“. Þeir sem eru dyggðugir, góðir og hreinir. Vegna þessa hefur hin vinnandi stétt og jaðarsettir hópar gripið til „vanillu sjálfs“ til þess að leggja áherslu á að þeir séu virðingarvert og vandað fólk.
Það má leiða líkum að því að „vanillu sjálf“ megi finna víða í íslensku samfélagi. Fólk sem hefur lítið vald í stjórnkerfinu, stofnunum og í fjármálaheimum þurfi að draga úr sínum persónuleika, klæða sig ekki of áberandi eða fallega og ekki tjá sig eins og viðkomandi væri eðlilegt að gera til þess að styggja ekki yfirmanninn sem hugsanlega mun veita viðkomandi framgang í starfi í náinni framtíð eða ekki.
Það má líka leiða líkum að því að þetta sé sá raunveruleiki sem konur hafi lengi búið við. Þær hafa þurft að þekkja sinn stað, að þegja en ekki tala og klæða sig þannig að þær ögri engum og reyna að vera þannig að sem flestum líki.
„Vanillu sjálf“ er fyrirbæri sem kemur í veg fyrir að fólk nái að þroska persónuleika sinn og nái að njóta sín sem manneskjur. Gott væri ef að við öll getum verið við sjálf með öllum okkar kostum og göllum og að við þyrftum ekki að „draga úr“ okkar persónuleika til þess að eiga möguleika í lífinu!